Velta á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu í vikunni lækkaði lítillega milli vikna eða um 19% og nam rúmum 1,1 milljarði króna samkvæmt upplýsingum frá Fasteignaskrá Íslands (áður Fasteignamat ríkisins).

Veltan í vikunni þar á undan nam rétt tæpum 1,4 milljarði milljónum króna en það var þá aðeins í þriðja skipti sem vikuveltan á fasteignamarkaði fer yfir milljarð króna frá því í byrjun desember.

Meðalvelta á viku á síðasta ári var rúmir 2,1 milljarðar. Þá er meðalvelta síðustu fjórar vikur rétt tæpur 1,1 milljarður eða 1.093 milljónir króna en meðalvelta frá áramótum er 957 milljónir á viku.

Um miðjan janúar fór 12 vikna meðalvelta undir milljarð króna í fyrsta skipti í tæpan áratug og nú er 12 vikna meðalvelta um 865 milljónir króna.

Á myndinni hér að ofan má sjá breytingu á fjögurra vikna meðalveltu á milli ára sem hefur minnkað um 70% milli ára. Fasteignasala sveiflast gjarnan mikið á milli vikna og þess vegna er horft til meðalveltu fjögurra vikna og breytinga á henni milli ára.

Fjöldi þinglýstra kaupsamninga var 37 í vikunni en 35 samningum var þinglýst í vikunni þar áður. Að meðaltali var 66 samningum þinglýst á viku á síðasta ári en frá áramótum hefur 32 samningum verið þinglýst að meðaltali á viku.

Meðalupphæð á hvern samning var í vikunni 30,6 milljónir króna og lækkar um tæpar 10 milljónir milli vikna. Það er nokkuð nálægt meðaltali en meðalupphæð á hvern samning á síðasta ári voru tæpar 32 milljón krónur en hefur verið 30,2 milljónir frá áramótum.

Á ársgrundvelli hefur velta á fasteignamarkaði dregist saman um 73% og gefur það heildstæðari mynd af fasteignamarkaði. Kaupsamningum hefur fækkað milli ára og er vægi hvers kaupsamnings meira fyrir vikið. Auk þess getur hver samningur falið í sér fleiri en eina eign auk þess sem eignir eru mismunandi.