Ekki er ástæða til þess að hafa áhyggjur af styrk evrunnar gagnvart Bandaríkjadal, en gengi hennar hefur aldrei verið hærra gagnvart dalnum, að mati Jürgen Stark, sem situr í framkvæmdastjórn Seðlabanka Evrópu. Ummælin benda til þess að deilur á milli stjórnvalda í Þýskalandi og Frakklandi um inntak peningamálastefnu bankans eigi eftir að harðna, en Nicolas Sarkozy nýkjörinn forseti Frakklands hefur ítrekað mælt fyrir að Seðlabankinn nýti hana til þess að örva vöxt í stað þess að halda niður verðbólgu. Þrátt fyrir það telja sérfræðingar ólíklegt að evran geti staðið undir því að fara yfir 1,40 dali til lengri tíma litið eins og hún stefnir í.

Fréttir af stöðu mála á bandaríska fasteignamarkaðnum hafa gert það að verkum að evran hefur styrkst gegn Bandaríkjadal enn frekar það sem af er viku. Sérstaklega er horft til ástandsins á fasteignalánum til þeirra sem hafa slæma skuldastöðu eða lágar tekjur. Matsfyrirtækin Standard & Poors og Moodys lýstu því yfir fyrr í vikunni að þau væru að endurskoða mat sitt á bandarískum skuldabréfum tengdum fasteignalánum til þeirra sem hafa verra lánshæfismat en gengur og gerist fyrir samanlagt 17,7 milljarða Bandaríkjadala. Þetta grefur undan stöðu dalsins með tvíþættum hætti. Í fyrsta lagi eykur það líkurnar að Seðlabanki Bandaríkjanna þurfi að grípa til vaxtarlækkunar í fyrirsjáanlegri framtíð til þess að stemma stigu við niðursveiflu. Á sama tíma eru vaxtahækkanir yfirvofandi á evrusvæðinu. Í öðru lagi kynni endurskoðun matsfyrirtækjanna að leiða til þess að lífeyrissjóðir þyrftu að selja slík skuldabréf. Rættist það kynni það að hafa töluverð á skuldabréfamarkaðinn í heild. Áhrifa hræringa á skuldabréfamarkaðnum bandaríska hefur einnig gætt á hlutabréfamörkuðum beggja vegna Atlantsála.

Fasteignamarkaðurinn ekki myllusteinn
Þrátt fyrir að horfurnar virðist dökkar telja sérfræðingar ekki líklegt að ástandið verði viðvarandi. Dow-Jones fréttastofan hefur eftir Roberto Milalich, gjaldeyrissérfræðingi hjá Unicredit HVB í Mílanó, að ástandið á bandaríska fasteignamarkaðnum sé tímabundið. Hræringarnar megi rekja til fasteignalána til þeirra sem hafa slæmt lánshæfismat og það muni ekki reynast myllusteinn um háls bandaríska hagkerfisins. Hann telur ekki útilokað að gengi evru gagnvart dal verði á bilinu 1,30 til 1,35 fyrir árslok.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.