Velta á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu jókst nokkuð í vikunni eða um 51% milli vikna. Þannig nam veltan 2.165 milljónum króna samkvæmt upplýsingum frá Fasteignaskrá Íslands (áður Fasteignamat ríkisins) en þá hafði veltan aukist verulega í vikunni á undan.

Veltan í vikunni sem nú er liðin er sú mesta í rúmt hálft ár, eða frá því um miðjan október.

Fjögurra vikna meðalvelta er nú tæpir 1,3 milljarðar króna og hækkar um tæpar tvö hundruð milljónir eftir að hafa lækkað í þrjár vikur þar á undan. Fjögurra vikna meðalvelta náði þó hámarki í byrjun apríl, eða tæpum 1,4 milljarði króna en hafði sem fyrr segir lækkað síðustu þrjár vikur.

Til að sjá betur heildarmyndina af fasteignamarkaðir má sjá fjögurra vikna meðalveltu á milli ára á myndinni hér að ofan en meðalveltan hefur minnkað um 33% milli ára sem er nokkuð minna en verið hefur síðustu mánuði. Fasteignasala sveiflast gjarnan mikið á milli vikna og þess vegna er horft til meðalveltu fjögurra vikna og breytinga á henni milli ára.

Alls var 50 kaupsamningum þinglýst í vikunni en 28 samningum var þinglýst í vikunni þar áður. Að meðaltali var 52 samningum þinglýst á viku á síðasta ári en frá áramótum hefur 32 samningum verið þinglýst að meðaltali á viku.

Meðalupphæð á hvern samning lækkar lítillega á milli vikna, nemur 43,3 milljónum króna á hvern samning, sem þó er nokkuð yfir meðaltali, en var 51,3 milljónir í vikunni þar á undan. Meðalupphæð á hvern samning á síðasta ári voru tæpar 32 milljónir króna en eru rúmar 35 milljónir króna frá hvern samning frá síðustu áramótum.

Á ársgrundvelli hefur velta á fasteignamarkaði aukist um 11% og er það í fyrsta skipti síðan í janúar 2008 sem velta á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu eykst milli ára. Það kann að gefa heildstæðari mynd af fasteignamarkaði.

Rétt er þó að hafa í huga að um þetta leyti í fyrra var þegar byrjað að kólna nokkuð á fasteignamarkaði og því harla mikill munur milli ára auk þess sem veltan getur sveiflast milli vikna. Kaupsamningum hefur fækkað milli ára og er vægi hvers kaupsamnings meira fyrir vikið. Auk þess getur hver samningur falið í sér fleiri en eina eign auk þess sem eignir eru mismunandi.