Heildarmat fasteigna á Íslandi hækkar um 5,8% frá yfirstandandi ári og verður 5.755 milljarðar króna, samkvæmt nýju fasteignamati fyrir árið 2016 sem Þjóðskrá Íslands birti í dag. Fasteignamatið hækkar á 93,4% eigna en lækkar á 6,6% eigna frá fyrra ári, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

Mat íbúðareigna (127.502) á öllu landinu hækkar samtals um 7,5% frá árinu 2015 og verður samanlagt fasteignamat þeirra 3.844 milljarðar króna í fasteignamatinu 2016. Eins og undanfarin fjögur ár hækkar matsverð íbúða í fjölbýli meira á landinu öllu en mat íbúða í sérbýli.

Fasteignamat atvinnuhúsnæðis í landinu hækkar um 2,3%. Á höfuðborgarsvæðinu hækkar matið um 2,4% en um 2,2% á landsbyggðinni. Frístundahúsnæði hækkar um 2,7%.

Heildarfasteignamat á höfuðborgarsvæðinu hækkar um 6,7%. Matið á Suðurnesjum hækkar um 4,2%, matið hækkar um 2,8% á Vesturlandi, 1,1% á Vestfjörðum, 3,8% á Norðurlandi vestra, 5,2% á Norðurlandi eystra, 2,8% á Austurlandi og 2,6% á Suðurlandi.

Fasteignamat utan höfuðborgarsvæðisins hækkar mest í Akrahreppi eða um 8,7% og um 7,8% í Hörgárhreppi en lækkar hins vegar mest í Breiðdalshreppi um 5% og á Skagaströnd um 4,5%.

Nánar á vef Þjóðskrár Íslands.