Heildarmat fasteigna á Íslandi fyrir árið 2022 hækkar um 7,4% frá yfirstandandi ári og verður 10.340 milljarðar króna, samkvæmt nýbirtu fasteignamati Þjóðskrár. Hækkunin er talsvert meiri en fyrir ári en þá hækkaði fasteignamat árið 2,1%.

Heildarfasteignamat á höfuðborgarsvæðinu hækkar um 8% en um 5,9% á landsbyggðinni. Mesta hækkunin er á Vestfjörðum eða um 16,3%, hækkunin er 8,6% á Norðurlandi vestra, 6,7% á Suðurlandi, 6,6% á Austurlandi, 5,1% á Suðurnesjum, 4,8% á Vesturlandi og 4,2% á Norðurlandi eystra.

Af einstaka bæjarfélögum hækkar heildarfasteignamat mest í Bolungarvík eða um 22,8%, um 18,9% í Ísafjarðarbæ og um 15,3% í Vesturbyggð. Mesta lækkunin er í Skorradalshreppi þar sem fasteignamatið lækkar um 2,6%.

„Við erum að sjá nokkuð meiri hækkun á fasteignamati heilt yfir landið en fyrir ári síðan sem er í takt við þróun fasteignaverðs á tímabilinu febrúar 2020 til febrúar 2021. Fyrir ári síðan ríkti nokkur spenna um hvaða áhrif Covid-19 myndi hafa á matið en við sjáum að aðrir þættir eins og lægri vextir hafa haft talsverð áhrif á fasteignamarkaðinn og þar með fasteignamatið,“ segir Margrét Hauksdóttir forstjóri Þjóðskrár í tilkynningu frá Þjóðskrá.

Fasteignamat í sérbýli hækkar um 9,6% á höfuðborgarsvæðinu, en 5,6% á landsbyggðinni. Þá hækkar fasteignamat í fjölbýli um 8,3% á höfuðborgarsvæðinu en um 3,7% á landsbyggðinni. Fasteignamat atvinnuhúsnæðis hækkar um 5,4% á höfuðborgarsvæðinu en um 8% á landsbyggðinni.

Fasteignamat sumarhúsa fyrir árið 2022 hækkar að meðaltali um 4,1% þegar litið er á landið í heild. Mesta hækkunin er á höfuðborgarsvæðinu þar sem sumarhús hækka um 9,4% en en þau lækka í Skorradalshreppi um 3,4%.

Í tilkynningu frá Þjóðskrá segir að langflestar fasteignir séu endurmetnar árlega út frá nýjustu matsforsendum og byggi meðal annars á upplýsingum úr þinglýstum kaupsamningum auk fjölmargra annarra þátta sem hafi áhrif á verðmæti fasteigna. Nýja fasteignamatið miðast við verðlag fasteigna í febrúar 2021 og gildir fyrir árið 2022. Hægt er að kynna sér fasteignamatið og fletta upp einstaka fasteignum á vef Þjóðskrár.