Heildarmat fasteigna á Íslandi hækkar um 7,7% frá yfirstandandi ári og verður 5.396 milljarðar króna árið 2015. Þetta kemur fram í nýju fasteignamati fyrir árið 2015 sem Þjóðskrá Íslands birti í dag.

Fasteignamat hækkar mest í Borgarfjarðarhreppi eða um 14,3% en lækkar hins vegar mest um 2,1% í Vogum. Nýtt fasteignamat miðast við verðlag fasteigna í febrúar 2014. Matið hækkar á 91,7% eigna en lækkar á 8,3% eigna frá fyrra ári.

Fasteignamatið byggir á upplýsingum úr þinglýstum kaupsamningum auk fjölmargra annarra þátta sem hafa áhrif á verðmæti fasteigna. Í ár er haldið áfram að þróa matsaðferðir Þjóðskrár í samræmi við lög um skráningu og mat fasteigna. Markmið laganna er að samræma fasteignamat á öllu landinu þannig að það standist kröfur stjórnsýsluréttar um jafnræði. Þessar breytingar hófust árið 2009 þegar nýjar og nákvæmari aðferðir voru teknar upp við mat á íbúðarhúsnæði. Nú eru teknar upp sambærilegar aðferðir við mat á atvinnuhúsnæði og húsum á bújörðum til sveita, sem endurspegla betur markaðsverðmæti á hverjum tíma.

Mat íbúðareigna (126.581) á öllu landinu hækkar samtals um 7,3% frá árinu 2014 og verður samanlagt fasteignamat þeirra 3.540 milljarðar króna í fasteignamatinu 2015. Matsverð íbúða í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkar meira en mat íbúða í sérbýli, en utan höfuðborgarsvæðisins er þessu öfugt farið.

Fasteignamat atvinnuhúsnæðis í landinu hækkar um 12,4%. Á höfuðborgarsvæðinu hækkar það um 14,1% en um 8,9% á landsbyggðinni. Frístundahúsnæði hækkar minnst eða um 3,3%.