Hjá Fasteignaskrá Íslands (áður Fasteignamat ríkisins) er nú unnið að endurmati fasteignamats. Samkvæmt lagabreytingu sem tók gildi um áramót á nú að endurmeta fasteignir einu sinni á ári, í lok maí,  gildir það mat þá árið eftir.

Fasteignaskrá mun þannig skila mati sínu á næstu dögum sem gilda mun frá og með 31. desember á þessu ári.

Helstu breytingar við gerð hins nýja mats eru þær að höfuðborgarsvæðinu, sem áður hefur verið skilgreint sem eitt svæði, verður nú skipt upp eftir hverfum en þannig á að fasteignamat að endurspegla betur fjölbreytileika fasteignaverðs  eftir  hverfum.

Breytingar á fasteignamati kunna að hafa í för með sér hækkanir til jafns við lækkanir á verðmati fasteigna. Þannig má búast við því að mat á fasteignum hækki á ákveðnum svæðum eða hverfum á höfuðborgarsvæðinu en lækki jafnframt í öðrum hverfum og standi svo í stað á öðrum stöðum. Í endurmatinu sem nú er lögð lokahönd á er  miðað við kaupsamninga frá því í nóvember síðastliðnum.

Á að endurspegla raunverð fasteigna

Margrét Hauksdóttir, aðstoðarforstjóri Fasteignaskrár Íslands segir að nýtt fasteignamat eigi að endurspegla betur raunverð fasteigna. Hún tekur fram að breyting fasteignamats sé mjög misjöfn eftir eignum.

Með því að birta fasteignamatið með svo löngum fyrirvara segir Margrét að það gefi bæði fasteignaeigendum tækifæri til að bregðast við og koma með athugasemdir og eins sveitafélögum að leggja fram fjárhagsáætlanir sínar fyrir næsta ár en fasteignagjöld miðast við fasteignamat hverju sinni.

Aðspurð segir Margrét að enginn ágreiningur sé um hið nýja mat innan Fasteignaskrár en það verður kynnt frekar í júní. Hún segir að stofnunin hafi unnið að endurmatinu með ráðgjöfum frá Bandaríkjunum, sem hafa unnið að sambærilegum verkefnum í Kanada og Evrópu og aðferðafræðin sem notuð verði við nýtt fasteignamat gefi raunhæfa mynd af verði fasteigna.