Verð á íbúðarhúsnæði í fjölbýli á Ísafirði hefur hækkað um 39 prósent á einu ári samkvæmt tölum frá Fasteignamati ríkisins. Meðalverð á fermetra fyrstu níu mánuði ársins 2004 var rétt rúmar 53 þúsund krónur en á sama tíma árið 2005 var meðalverðið um 74 þúsund krónur. Þá seldust einungis sextán fjölbýli fyrstu níu mánuðina í fyrra, á meðan 41 fjölbýli hefur selst það sem af er ári. Bæði árin er rúmlega helmingsmunur á dýrasta og ódýrasta fjölbýlishúsnæðinu segir í frétt Bæjarins besta á Ísafirði.

Þar kemur einnig fram að árið 2004 nær verðið frá um þrjátíu þúsund krónum á fermetrann og upp í um 76 þúsund krónur, en árið 2005 nær verðið frá 52 þúsund krónum upp í rétt rúmlega 109 þúsund krónur á fermetrann. Verð á íbúðarhúsnæði í sérbýli hefur einnig hækkað nokkuð, þó minna sé, eða um rétt rúmlega 14 prósent. Fyrstu níu mánuði ársins 2004 seldust ellefu sérbýli fyrir að meðaltali 46 þúsund krónur á fermetrann, minnst 25 þúsund en mest 68 þúsund. Árið 2005 hafa svo selst 15 sérbýli fyrir að meðaltali 52 þúsund krónur á fermetrann, minnst 26 þúsund krónur en mest 73 þúsund krónur.

Til samanburðar má geta þess að verð á sérbýlum á Akureyri hækkaði um 22 prósent á milli áranna 2004 og 2005, en verð á fjölbýlum um 16 prósent. Ekki var unnt að fá tölur yfir nákvæmlega sama tímabil í Reykjavík, en frá september 2004 til september 2005 hækkaði verð á fjölbýli um 34 prósent og verð á sérbýli um 22 prósent.