Fjöldi þinglýstra kaupsamninga á höfuðborgarsvæðinu vikuna 7. nóvember til og með 13. nóvember 2014 var 158. Þar af voru 117 samningar um eignir í fjölbýli, 27 samningar um sérbýli og 14 samningar um annars konar eignir en íbúðarhúsnæði. Þetta kemur fram á vefsíðu Þjóðskrár Íslands.

Heildarveltan nam  rúmum 5,7 milljörðum króna og hefur veltan ekki verið meiri síðan í byrjun júlí, eða í 18 vikur. Raunar hefur vikuveltan aðeins þrisvar sinnum verið meiri en 5,7 milljarðar á árinu.

Á Akureyri var heildarveltan vikuna 7. til 13. nóvember 620 milljónir og er það mesta veltan það sem af er ári. Veltan á fasteignamarkaði á Árborgarsvæðinu nam 275 milljónum sem er sjötta mesta velta á árinu. Á Suðurnesjum nam veltan 304 milljónum króna og hefur vikuveltan aðeins sex sinnum verið meiri það sem af er árinu.