Það ríkir nokkur kyrrð á fasteignamarkaði þessa dagana, enda fólk rétt að átta sig á því hvað breytt lánafyrirkomulag Íbúðalánasjóðs þýðir í raun og veru. Búið er að lofa fólki húsnæðislánum á lægri vöxtum en áður hefur þekkst og fólk bíður átekta. Vextir á nýjum lánum Íbúðalánasjóðs verða til að byrja með 4,8% en um miðjan mánuðinn mun fara fram fyrsta íbúðabréfaútboð Íbúðalánasjóðs sem mun ákvarða kjör lánanna. Greining Íslandsbanka hefur spáð því að vextir á nýjum íbúðalánum verði á bilinu 4,5-4,8% eftir útboðið og því eðlilegt að fólk doki við.

Í frétt Viðskiptablaðsins sem kom út í morgun segir Jón Guðmundsson, fasteignasali hjá Fasteignamarkaðnum, lítið framboð af íbúðum þessa dagana - breytingin lofi þó góðu og spáir hann því að nýtt lánakerfi muni virka sem vítamínsprauta á markaðinn. Þorlákur Ómar sölustjóri hjá Miðborg segir markaðinn þessa dagana einkennast af biðstöðu. "Fólk er að bíða, það hefur verið mikið að gera hjá bönkunum við að útbúa greiðslumat fyrir viðskiptavini, en afgreiðslutími hjá Íbúðalánasjóði hefur á sama tíma verið mjög stuttur sem þýðir að fáar umsóknir hafa verði lagðar inn - fáar íbúðir seldar." Sverrir Kristinsson, fasteignasali hjá Eignamiðlun, segir fyrstu daga júlí hafa verið líflega, en hann á þó von á því að markaðurinn taki kipp eftir miðjan júlí þegar niðurstöður fyrsta útboðs Íbúðalánasjóðs á hinum nýju íbúðabréfum verði ljósar.

Fasteignasalar virðast sammála um að rólegheitum á fasteignamarkaði muni brátt linna, fjör muni færast í leikinn með haustinu. En hvað með verðþróun, mun hið nýja kerfi leiða til hækkana eða lækkana? Jón Guðmundsson hjá Fasteignamarkaðinum telur að hið nýja lánafyrirkomulag muni verða til þess að lyfta fasteignaverði, þó sé rétt að hafa í huga að aldrei fyrr hafi annað eins magn af nýjum íbúðum verið í smíðum víðs vegar um höfuðborgarsvæðinu og það geti haft einhver áhrif til dempunar á fasteignaverð. "Horft til lengri tíma sé ég þó ekkert annað en stíganda og ég sé alls ekki fyrir verðlækkun. Ég tel að þetta nýja kerfi eigi frekar eftir að lyfta verðinu." Þorlákur Ómar hjá Miðborg segist sjá framundan fjörugt haust, það sé að safnast upp eftirspurn sem eigi eftir að springa út og hann segir hækkanir vera í farvatninu. "Ég myndi ráðleggja þeim sem eru að bíða að kaupa strax, því fasteignaverð hefur bara hækkað og mun gera það áfram - fólk verður hissa. Þetta segir sig í raun sjálft, vextir fara lækkandi hjá Íbúðalánasjóði, það er tilhneiging hjá bönkum og Íbúðalánasjóði að hækka veðhlutfall eigna ásamt því að lengja lánin og það þýðir bara eitt. Meiri eftirspurn og hækkandi verð." Sverrir Kristinsson, hjá Eignamiðlun segist reikna með því að verð muni standa í stað eftir miklar hækkanir, eða jafnvel hækka eitthvað - ólíklegt sé að fasteignaverð fari lækkandi.