Undanfarin þrjú ár hefur fasteignasölum fjölgað um 20-25% en fyrirséð er að hinn mikli samdráttur sem orðið hefur á fasteigna- og fjármagnsmarkaði geti orðið til þess að þeim fækki sem þessu nemur á næstu mánuðum, jafnvel meir, að sögn Grétars Jónassonar, framkvæmdastjóra Félags fasteignasala.

Hann segir stöðuna á fasteignamarkaði grafalvarlega og grípi menn til allra ráða til að hagræða í rekstrinum.

„Við þetta ástand er alveg ljóst að samrunar verða tíðari og að einhverjar stofur heltast úr lestinni. Þessi þróun er þegar hafin og hætt er við að hún færist í aukana á næstu mánuðum," segir Grétar.

Gjörsamlega ólíðandi ástand

Þótt ríkjandi ládeyða á markaði sé ekki fagnaðarefni hafi hún þó haft þau áhrif að ýta mörgum hinna réttindalausu út úr faginu og kveðst Grétar telja það jákvætt fyrir greinina í heild.

„Þessir aðilar eru að hverfa aftur til fyrri starfa, meðal annars við afgreiðslustörf og akstur sendibíla. Því miður eru þó brögð að því að viðkomandi aðilar hafi enn söluleyfi og séu meðfram nýja starfinu að reyna að höndla með fasteignir fólks,“ segir Grétar.

„Ég heyrði af einum sölumanni sem hættur var á fasteignasölu og byrjaður að afgreiða á kassa í Bónus en var alltaf með farsímann í vasanum og hljóp inn á lager þegar hann hringdi. Þegar menn spurðu hverju þetta sætti var svarið það að hann væri í fasteignasölu. Þetta er gjörsamlega ólíðandi ástand.”