„Staðan er sú á síðustu árum að sveitarfélögin eru að seilast æ dýpra í vasa almennings og fyrirtækja þegar kemur að þessu. Við sjáum það að fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði hafa næstum því tvöfaldast frá 2011,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í viðtali við þáttastjórnendur Í bítinu á Bylgjunni í morgun þegar rætt var um fasteignaskatta sveitarfélaga á atvinnuhúsnæði og þá miklu hækkun sem orðið hefur á þeim.

Sigurður segir að mat á fasteignum, hvort sem það er íbúðarhúsnæði eða atvinnuhúsnæði, hafi sannarlega hækkað en sveitarfélögin hafa hins vegar ekki séð ástæðu til þess að lækka skattprósentuna að sama marki. „Hún er yfirleitt í toppi, meðaltalið hjá sveitarfélögunum er rétt undir hámarkinu. Það munar langmestu um Reykjavík, stærsta sveitarfélagið þar sem álagningin er í toppi þar sem er vel á annan tug milljarða í fasteignagjöldum á atvinnuhúsnæði fyrir utan íbúðarhúsnæði. Þetta eru háar fjárhæðir. Þó að sveitarfélög hafi lækkað prósentuna á milli ára á atvinnuhúsnæði þá er það samt hækkun í krónum talið af því að stofninn hækkar svo mikið. Þetta kemur til viðbótar við það að skattar á Íslandi eru háir í alþjóðlegu samhengi. Það er auðvitað ekki hægt að bjóða fyrirtækjum upp á þetta til viðbótar við sveiflur, óstöðugleika og innlendar kostnaðarhækkanir. Við sjáum það að laun eru líka há í alþjóðlegum samanburði. Allt leggst þetta á eitt, á sama tíma og hægir á vextinum þá eru sveitarfélögin að taka meira til sín. Gjöldin eru að hækka um 14% á milli 2018 og 2019.“

Í umræðunni kom jafnframt fram að skoða þurfi aðferðarfræðina hvernig þessir skattar eru reiknaðir. „Það þarf aðhald á sveitarfélögin, að þau nýti ekki tækifærið þegar fasteignamatið er hækkað að fá miklu fleiri krónur í kassann. Síðan er hitt málið með aðferðafræðina, það má skoða það og er ástæða til að skoða það því það skiptir ekki minna máli.“