Við erum búin að fá fyrstu greiningu á þessu en á næstu tveimur vikum förum við að skoða þetta nánar,“ segir Björn Blöndal nýkjörinn formaður borgarráðs og oddviti Bjartrar framtíðar, um stöðu á fasteignasköttum í borginni. Eins og fjallað var um í síðustu viku þá hækkaði fasteignamat Þjóðskrár um 13,3% að meðaltali í Reykjavík og þá hækkaði atvinnuhúsnæði meira en íbúðarhúsnæði.

Björn segir að unnið sé að nánari greiningu á áhrifum nýs fasteignamats. Aðspurður um stefnu Bjartrar framtíðar í málinu segir hann að aðstæður ráði að hluta til för. „Við höfum aðallega talað fyrir hófsemd í þessu. En auðvitað verða aðstæður að ráða í þessu. Við lækkuðum fasteignaskatta árið 2012 til samræmis við það sem hafði verið gert árið áður. Þá vorum við að reyna að halda okkur við þá krónutölu sem hafði komið inn í borgarsjóð. Við verðum aðeins að leggja mat á það hverjar aðstæðurnar eru.“ Birgir Björn Sigurjónsson, fjármálastjóri Reykjavíkurborgar, segir í samtali við Viðskiptablaðið að gróflega áætlað líti út fyrir að tekjur Reykjavíkurborgar af fasteignasköttum muni aukast um 11%-12% árið 2015 vegna hækkunar á fasteignamati ef miðað er við óbreytta skattprósentu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð .