*

mánudagur, 2. ágúst 2021
Innlent 27. desember 2007 11:08

Fasteignaverð gefi eftir á næsta ári

Ritstjórn

Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóri Landsbanka Íslands, telur að fasteignaverð komi til með að gefa eftir á næsta ári og að það muni hjálpa til við að ná verðbólgunni í viðunandi horf. "Í framhaldinu trúi ég því að Seðlabankinn lækki vexti,” segir hann í samtali við Viðskiptablaðið. Hann telur að krónan muni einnig gefa eitthvað eftir á næsta ári, en þó ekki það mikið, segir hann, að menn þurfi að hafa áhyggjur af því.

Sigurjón segir, þegar hann er spurður um horfurnar framundan, að óvanalegt ástand ríki að mörgu leyti í efnahagsmálum á heimsvísu um þessar mundir. Hann vísar þar til lausafjárkrísunnar sem rekja má til undirmálslána í Bandaríkjunum. “Menn vona að það muni leysa úr þessu sem fyrst á næsta ári en þangað til ríkir mjög furðulegt ástand í heiminum.”

Sigurjón segir að þetta ástand hafi áhrif hér á landi. “Til viðbótar erum við að glíma við tiltölulega hátt vaxtastig og kannski ákveðið ójafnvægi í efnahagsmálum á Íslandi. Mín skoðun er sú að fasteignaverð komi til með að gefa eftir á næsta ári og að það muni hjálpa til við að ná verðbólgunni í viðunandi horf.”