Fasteignaverð hér á landi hefur lækkað um 5,5% að nafnvirði og tæplega 21% að raunvirði síðastliðna 12 mánuði. Þetta kemur fram í mánaðaryfirliti IFS Greiningar um fasteignamarkaðinn, en þar segir einnig að raunverðið hafi einu sinni lækkað meira. Það hafi verið árið 1985 og þá hafi lækkunin numið 21%.

Það vantar því lítið upp á að fyrra met verði slegið og í skrifum IFS Greiningar segir að miðað við vísbendingar af fasteignamarkaði megi búast við að fasteignaverð muni á næstu mánuðum lækka í takti við það sem verið hefur.

Enn töluverð verðlækkun framundan nema vextir lækki mikið

Í mánaðaryfirlitinu kemur fram að þrátt fyrir lækkunina sé fasteignaverð enn um 30% hærra en langtímameðaltal með tilliti til launa og fjármagnskostnaðar gefi til kynna. Telja megi líklegt að fasteignaverð þurfi enn að lækka töluvert nema mjög mikil lækkun verði á vöxtum til kaupa á húsnæði.