Fasteignaverð heldur áfram að lækka í Bretlandi í nóvember og er búist við áframhaldandi lækkun á næstunni, segir í Vegvísi Landsbankans.

Mest var lækkunin í austanverðum miðhéruðum Englands, 0,3%, og í London, 0,2%. Þar að auki hélt húsnæðisverð áfram að lækka í fjármálahverfi London, um 0,5%. Kostnaður vegna lántöku hefur ekki verið hærri í sex ár auk þess sem hægt hefur á hagvexti í kjölfar markaðsaðstæðna um allan heim.

Meðalvextir af algengustu húsnæðislánum Bretlands eru nú 6,37% og hafa hækkað um eitt prósentustig síðan í fyrra. Takmarkað framboð fasteigna vegur á móti lækkunum þar sem framkvæmdir stóðu í stað á árunum 1989 til 2005.