Fasteignaverð hækkaði lítillega í janúar samkvæmt nýjustu tölum frá Fasteignamati ríkisins, en hækkunin nemur 1,5% frá því í desember. Greiningardeild Kaupþings segir frá því að hækkunina milli mánaða megi rekja til hækkunar í sérbýlum sem nam 3%, en fjölbýli hafi nánast staðið í stað.

Með fækkandi kaupsamningum eykst vægi hvers samnings í útreikningum á fasteignaverði á hverjum tíma. „Í janúar voru þinglýstir 324 samningar, þar af einungis 40 kaupsamningar sérbýla – sem þá skýra þessa 3% hækkun. Veltutölur hafa dregist hratt saman síðustu vikurnar og eru nú í sögulegu lágmarki. Vægi hvers samnings vegur því þyngra eftir því sem samningum fer fækkandi. Fasteignaverðs sveiflast almennt milli mánaða og af þeim sökum er eðlilegra að líta til þriggja mánaðar hækkunar íbúðaverðs, en sú hækkun stendur í stað í janúar," segir Greiningardeild.

Þrátt fyrir að um sé að hægjast á fasteignamarkaði, er hækkunin milli ára í janúar talsverð, eða um 14%.