Verð fasteigna í Toronto í Kanada hrapaði um 13% í október miðað við sama mánuð í fyrra samkvæmt tölum fasteignanefndar Torontoborgar. Er fasteignaverðið nú lægra en það var í október árið 2006.

Greint er frá þessu í Financial Post, en þar kemur fram að meðal fasteignaverð í Toronto í október sl. var 376.896 dollarar, en var 434.022 dollarar í október 2007. Þá var meðalverðið 386.807 dollarar í október 2006.

Á stór-Toronto svæðinu lækkaði meðalverðið heldur minna í október, eða um 10% frá sama mánuði í fyrra og er það orðið einu prósenti lægra en í október 2006.

Haft er eftir Maureen O'Neill formanni fasteignanefndar Torontoborgar að eftirspurn eftir fasteignum hafi fjarað út mjög snögglega í október. Í Torontoborg sjálfri dróst salan saman um 38% frá sama mánuði 2007. Á stór- Torontosvæðinu dróst salan saman um 35% miðað við sama tíma 2007 og var hún um 25% minni en í október 2006. Maureen O'Neill segir þó að miðað við úttekt Alþjóða gjaldeyrissjóðsins sé samt engin spurning að fasteignir séu áreiðanlegar fjárfestingar til lengri tíma litið. Í úttekt sjóðsins hafa Kanada verið annað tveggja ríkja á heimsvísu þar sem efnahagslegar forsendur  ríkisins eru taldar geta staðið undir háu fasteignaverði.