Fasteignaverð í Dubai mun falla um 15% að meðaltali á þessu ári samkvæmt spá Merrill Lynch. Spáin tekur að stórum hluta mið af offramboði á fasteignamarkaði í arabíska furstadæminu. Gert er ráð fyrir að 44.000 eignir muni áfram standa auðar og óseldar á árinu 2010.

Þessi spá um 15% verðfalla kemur til viðbótar 45% verðfalli sem hefur orðið á fasteignum í Dubai frá því verðið var hæst á þriðja ársfjórðungi 2008.

Sérfræðingar Colliers International eru þó mun bjartsýnni í sinni framsetningu og segja að fasteignaverð í Dubai hafi verið 2% hærra á 1. ársfjórðungi 2010 en á sama tíma 2009. Einnig að verðið hafi þokast upp um 4% á fyrsta ársfjórðungi þessa árs sem er í annað sinn á þrem ársfjórðungum sem merki séu um bata. Þannig hafi fasteignaverð verið 7% betra á þriðja ársfjórðungi 2009 en í sama ársfjórðungi 2008. Þetta segir þó ekkert um að spámenn Merrill Lynch hafi rangt fyrir sér, enda verðfallið mun meira að meðaltali á síðasta ári en áætlað er á þessu ári.

Tölur Colliers sýna miklu fremur að hægt er að matreiða sama sannleikann á mismunandi vegu. Enda segja sérfræðingar fyrirtækisins að líklegast sé að fasteignaverðið haldi áfram að lækka frá því sem nú er. Er talið hugsanlegt að botninum verði jafnvel ekki náð fyrr en eftir 3-5 ár.