Nýjar tölur frá Fasteignamati ríkisins sýna að fleiri njóta hækkandi fasteignaverðs en höfuðborgarbúar. Ef litið er aftur til ársins 1990 kemur í ljós að fasteignaverð hefur hækkað hlutfallslega mest á Vesturlandi, þá á Reykjanesi og loks á höfuðborgarsvæðinu. Þetta kemur fram í ítarlegri úttekt á þróun fasteignaverðs sem birt er í Viðskiptablaðinu í dag.

Miklar hækkanir hafa orðið á fasteignaverði frá árinu 1998 og ef breytingin á milli áranna 1997-2003 er skoðuð kemur í ljós að fermetraverð á íbúðahúsnæði á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um tæp 80%. Athygli vekur að fasteignaverð á þeim svæðum sem liggja að höfuðborgarsvæðinu hefur einnig þróast á sömu nótum. Á Suðurlandi var hækkunin til að mynda 70%, um 60% á Vesturlandi og Suðurnesjum á sama tímabili. Á Norðausturlandi hækkaði fasteignverð um 50% en á Norðurlandi vestra og Austurlandi hækkaði fasteignaverð ekki nema um 10% á árunum 1997-2003. Á Vestfjörðum stóð verðið hins vegar nokkurn veginn í stað en það hefur lækkað um 2,6% frá árinu 1997.

Í Viðskiptablaðinu í dag er birt yfirlit yfir hvernig fasteignaverð hefur þróast í einstaka hverfum á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 1997, en Seljahverfi hefur hækkað mest, um 92%, en þar á eftir kemur hverfið innan Hringbrautar og Snorrabrautar í Reykjavík sem hefur hækkað um tæp 90%.