Fasteignamarkaðurinn í New Orleans í Bandaríkjunum hefur jafnað sig vel eftir áföllin sem urðu í kjölfar fellibylsins Katrínar í ágúst í fyrra. Samkvæmt frétt Houston Chronicle mælast hækkanir á fasteignamarkaði nú í tveggja stafa prósentutölum. Vitnað er í tölur samtaka fasteignasala sem segja fasteignaviðskipti blómstra ótrúlega vel.

Síðustu fjóra mánuði síðasta árs, eða mánuðina eftir fellibylinn mikla, var meðalverð allra seldra fasteigna í borginni 215.769 dollarar, eða sem svarar rúmum 14 milljónum króna. Það er 21% hærra en árið 2004. Á svæðinu fyrir norðan Lake Pontchartrain á St. Tammany svæðinu sem ekki fór undir vatn hefur nærri helmingur allra fasteignaviðskiptanna átt sér stað eftir fellibylinn. Þar hefur meðalverð allra seldra fasteigna farið í 221.156 dollara, eða í rúmar 15 milljónir króna. Það er 20% hærra verð en meðalverð allt árið 2004.

Í efri hverfum New Orleans borgar sem ekki fóru undir vatn hefur verðið sumstaðar hækkað um 49% frá því sem var árið 2004. Í Algiers hverfinu, sem er eitt það fyrsta í New Orleans sem fólki var hleypt inn í eftir flóðin, hefur fasteignaverðið hækkað um 9%. Þykir þetta sýna glögglega að fasteignamarkaðurinn í New Orleans er engan veginn dauður eftir áföllin sem þar dundu yfir. Virðist sem fjárfestar víða um Bandaríkin sjá sér nú hag í að kaupa fasteignir á svæðinu í von um að geta selt þær aftur eftir skamman tíma með verulegum hagnaði. Einnig eru margir fasteignakaupendanna úr þeim hópi sem misstu sínar eignir í flóðunum. Aðrir koma flestir úr öðrum ríkjum Bandaríkjanna og eru þar á ferð bæði verktakar og fjárfestar sem sjá þarna hagnaðarvon.