Meðalverð fasteigna á Vestfjörðum lækkaði á milli áranna 1998 og 2004 um 9,4%. Á sama tíma hefur vísitala neysluverðs hækkað um 27,9%. Má því ætla að eignir Vestfirðinga í húseignum hafi rýrnað um nokkra milljarða króna á undanförnum árum segir í frétt Bæjarins besta um málið.

"Meðalfermetraverð íbúðarhúsnæðis á Vestfjörðum hefur á undanförnum árum verið að lækka á sama tíma og fermetraverð hefur farið mjög hækkandi í flestum öðrum landshlutum. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Fasteignamati ríkisins um verðþróun íbúðaverðs. Í tölunum kemur fram að frá árinu 1998 hefur meðalverð á fermetra á Vestfjörðum lækkað um 9,4%," segir í frétt BB. Á sama tíma hefur verð á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 90,2%, á Reykjanesi hefur verðið hækkað um 83,9%, á Vesturlandi hefur verðið hækkað um 77,1%, á Norðurlandi vestra hefur verðið hækkað um 27,8%, á Norðurlandi eystra hefur verðið hækkað um 57,8% á Austurlandi hefur verðið hækkað um 54,7% og á Suðurlandi hefur verðið hækkað um 75,9%.

Á milli áranna 2003 og 2004 lækkaði meðalverð á Vestfjörðum um 1,7% á sama tíma og verð á Austförðum hækkaði um 34,8%.

Byggt á frétt af netsíðu Bæjarins besta á Ísafirði.