Í nýrri hagspá hagfræðideildar Landsbanka Íslands sem birt var í gær er gert ráð fyrir að fasteignaverð muni hækka um 8,5% á þessu ári og um 9,5% á næsta ári. Þá segir í spánni að draga muni lítillega úr hækkuninni á árunum 2016 og 2017 en að nú sé markaðurinn að nálgast jafnvægi eftir nær algert hrun á árunum 2008-2009.

Þrátt fyrir þessa miklu hækkun telur Daníel Svavarsson, forstöðumaður hagfræðideildar Landsbankans, hana ekki vera vísbendingu um bólumyndun enn sem komið er. „Hækkun á verði fasteigna hefur verið í ágætis samræmi við hækkun kaupmáttar og breytingu á byggingarkostnaði. Það segir sig sjálft að ef við sjáum áframhaldandi hækkun þá gæti farið að myndast frekari vísbendingar um bólu. En eins og staðan er í dag þá teljum við fasteignaverð í ágætis jafnvægi miðað við undirliggjandi þætti,“ segir Daníel.

Fasteignaverð og kaupmáttur fylgjast að

Í þjóðhagsspánni kemur fram að kaupmáttur launa hafi aukist mikið á undanförnum mánuðum og slík þróun leiti yfirleitt í fasteignaverð. Sé litið á langtímasamhengi fasteignaverðs og kaupmáttar sjáist að stærðirnar hafi fylgst nokkuð náið að á síðustu árum og því sé ekki hægt að segja að fasteignaverð sé að þróast úr takti við það sem eðlilegt megi teljast.

Hagfræðideildin spáir áframhaldandi hækkun kaupmáttar á næstu árum og að fasteignaverð muni fylgja þeirri þróun. Það muni þó ekki vera í líkingu við það sem gerðist fyrir 10 árum þegar fasteignaverð hafi tekið skrið án tengsla við aðrar raunstærðir hagkerfisins.