Á þriðja ársfjórðungi 2020 hækkaði íbúðaverð um 3-6% milli ára í stærstu þéttbýliskjörnum landsins. Hækkunin var víða minni en á fyrri fjórðungum ársins. Mest hækkaði íbúðaverð í Reykjanesbæ eða um sex prósent en hækkunin var fimm prósent á höfuðborgarsvæðinu og á Akranesi. Frá þessu er greint í Hagsjá Landsbankans.

Árshækkun á íbúðaverði á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki verið jafn mikil á þessu ári og á þriðja ársfjórðungi en hún var þrjú prósent á fyrsta fjórðungi. Hún hefur hins vegar ekki verið jafn lág og nú á Akranesi en árshækkun mældist 16% á fyrsta ársfjórðungi. Frá upphafi árs 2015 hefur íbúðaverð hækkað hraðar utan höfuðborgarsvæðisins en innan þess, þó munurinn er að minnka.

Fram kemur að viðskipti með íbúðarhúsnæði hafa víða aukist þrátt fyrir þær aðstæður sem nú ríkja. Frá því í maí hefur aukning í fjölda undirritaðra kaupsamninga verið mest á Vesturlandi eða allt að 58%. Á höfuðborgarsvæðinu mældist aukningin 26% á þriðja ársfjórðungi en 4% á Suðurlandi.

„Á nær öllum þéttbýlissvæðum sem voru til skoðunar hefur hlutfall nýbygginga á meðal seldra íbúða aukist. Mestu munar í Reykjanesbæ og á Akranesi þar sem hlutfallið hefur aukist um 11 og 13 prósentustig milli ára,“ kemur fram í Hagsjánni.

Færri flytja til Íslands

Fram kemur að eftir að veirufaraldurinn hófst hafa færri manns flutt til landsins en í venjulega árferði. Íbúum landsins er þó að fjölga en á þriðja ársfjórðungi flutti samtals 550 fleiri til landsins en frá því. Hægari fólksfjölgun mun skapa minni þrýsting á húsnæðismarkaðinn en ella.

Munurinn er meiri utan höfuðborgarsvæðisins en af þeim sem fluttu til landsins settust 450 að á höfuðborgarsvæðinu og 110 utan þess. Það gerir ríflega 60% minni aukningu en á sama tíma á fyrra ári á höfuðboðborgarsvæðinu en um 74% minni aukningu en utan þess. Á öðrum ársfjórðungi fækkaði aðfluttum umfram innfluttum um 98% í heildina.