Fasteignaverðið hækkar og hækkar samkvæmt mælingum Fasteignaskrár. Tólf vikna meðaltalsvelta í síðustu vikunni í maí sl. var 2,7 milljarðar króna en á sama tíma í fyrra var tólf vikna meðaltalsvelta 1,3 milljarðar. Fasteignaviðskipti hafa aukist mikið, einkum á þessu ári. Á það jafnt við um stærri og minni eignir.

Peningageymsla?

Ástæðuna fyrir auknum umsvifum á fasteignamarkaðnum er ekki að finna í auknum kaupmætti fólks því samkvæmt mælingum hefur hann dregist saman á sama tíma og fasteignaviðskipti hafa u.þ.b. tvöfaldast. Hins vegar er almennt álitið að kaupmáttur fari nú vaxandi, þ.e. ef tekst að halda verðbólgu í skefjum.

Fasteignamarkaðurinn var umsvifalítill í nærri tvö ár, frá haustmánuðum 2008 og fram á síðsumar 2010. Eftir því sem vextir á innlánsreikningum hafa lækkað, við aðstæður þar sem gjaldeyrishöft draga verulega úr möguleikum til ávöxtunar fjár, hefur meiri hreyfing komist á fasteignaviðskipti. Greiningardeildir Arion banka og Íslandsbanka hafa báðar á það bent að gjaldeyrishöftin þrýsti fjármagni inn á fasteignamarkaðinn sem annars væri mögulega ekki þar. Fasteignir eru því orðnar hálfgerð peningageymsla hjá sumum, einkum þeim sem eiga mikið laust fé og eru tilbúnir að leigja út fasteignir til lengri tíma.

Aukist um 75%

Um 1.600 fasteignakaupsamningum hefur verið þinglýst það sem af er ári. Það er um 75% aukning frá fyrra ári. Heildarfjöldi þinglýstra samninga í síðustu viku maímánaðar var 399 sem er það mesta síðan seinni hluta ársins 2007

Nána er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak undir Tölublöð.