Á fyrstu átta mánuðum þessa árs hefur vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 4,1%. Á síðustu 12 mánuðum hefur hún hækkað um 8,1%. Það virðist því sem aðeins hafi hægst á fasteignamarkaðnum því á árinu 2014 hækkaði fasteignaverð um 10,4%.

Eins og margir vita tók fasteignamarkaðurinn dýfu eftir hrun. Fasteignaverð lækkaði töluvert milli áranna 2008 og 2010 en eftir það tók það að hækka að nýju. Frá árinu 2008 hefur vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 21%.

Á fyrstu 37 vikum ársins nemur heildarveltan á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu tæpum 182 milljörðum króna. Á fyrstu 37 vikunum í fyrra nam veltan ríflega 163 milljörðum og hefur hún því aukist um 11% milli ára. Hafa þarf í huga að þegar talað eru um veltu hér þá er verið að tala um íbúðarhúsnæði og annars konar húsnæði.

Gróflega má áætla að veltan árið 2015 verði um 255 milljarðar.  Ef það verður raunin verður það mesta velta á fasteignamarkaði eftir hrun og mesta velta síðan árið 2007.

Svo lengi sem það verður ekki einhver sprengja á fasteignamarkaði á næstu þremur mánuðum þá stefnir allt í að 2015 verði fimmta mesta veltuár síðustu 14 ára. Veltan á árunum 2005 til 2007 var meiri, reyndar töluvert meiri.  Árið 2007 nam hún 479 milljörðum króna, reiknað á verðlagi ársins 2015. Hún var sem sagt nærri því tvöfalt meiri en hún stefnir í að verða á þessu ári. Á árunum 2005 til 2006 var veltan á bilinu 323 til 392 milljarðar á verðlagi þessa árs.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .