Fasteignaverð í Bandaríkjunum hefur lækkað um 0,8% á milli mánaða. Verðið hefur lækkað sleitulítið síðastliðna fimm mánuði og hefur það lækkað um 3,8% síðastliðna tólf mánuði. Meðalverð fasteigna er nú á svipuðum slóðum og við árslok 2002, samkvæmt því sem fram kemur í mælingu S&P/Case-Schiller-fasteignavísitölunnar.

Frá því fasteignaverð náði hæstu hæðum um mitt ár 2006 hefur fasteignaverð vestanhafs að meðaltali lækkað um 34,4%.

Í umfjöllun bandarísku fréttastofunnar CNN um þróun á bandarískum fasteignamarkaði kemur fram að fasteignaverð hafi lækkað í flestum borgum. Mesta verðlækkunin til þessa er í Atlanta, Chicago, Cleveland, í spilaborginni Las Vegas, New York, Portland, Seattle og Tampa. Á móti hækkaði verðið aðeins í þremur borgum. Það var í Phoenix, Washington og í Miami.