Fasteignaverð í London í Bretlandi lækkaði um 0,6% milli ára á þriðja ársfjórðungi. Er þetta í fyrsta skipti í átta ár sem fasteignaverð í borginni lækkar. The Guardian greinir frá.

London var eina svæðið á öllu Bretlandi þar sem fasteignaverð lækkaði milli júlí og september borið saman við sama tímabil í fyrra. Fasteignaverð í Bretlandi öllu hækkaði um 2,2% á sama tímabili.

Meðalsöluverð á fasteign í London er nú tæplega 472 þúsund pund eða jafnvirði rúmlega 67 milljóna íslenskra króna. Fasteignaverð þar hefur farið hækkandi undanfarinn áratug eða svo og hefur hækkað um alls 56%. Meðalsöluverð á fasteign í Bretlandi almennt er um helmingi minna en í London, eða 211 þúsund pund, sem jafngildir 30 milljónum króna.

Samkvæmt greiningaraðilum skýrist lækkunin í London af svartsýnni væntingum neytenda, aukinni verðbólgu, hægum launavexti, hærri stimpilgjöldum og áhyggjum yfir útgöngu Breta úr Evrópusambandinu.