Sé miðað við veltu á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu síðustu 13 ár, fjölda kaupsamninga á þeim tíma og meðalupphæð á hvern samning þá er markaðurinn í jafnvægi.

Meðaltalsvelta síðustu 13 ár nemur 232,4 milljörðum króna á ári, reiknað á verðlagi ársins 2014. Veltan í fyrra nam 233,3 milljörðum. Toppnum var náð árið 2007 þegar veltan á höfuðborgarsvæðinu fór í tæpa 473 milljarða króna á verðlagi síðasta árs. Það er næstum 240 milljarða króna meiri velta en var á síðasta ári.

Að meðaltali hafa verið gerðir 6.398 samningar á ári síðustu 13 ár. Í fyrra voru gerðir 6.365 samningar.

Meðalupphæð á hvern samning síðustu 13 ár er 36,4 milljónir króna á verðlagi ársins 2014. Meðalupphæð á hvern samning í fyrra var 36,6 milljónir. Þessir útreikningar byggja á tölum Þjóðskrár Íslands og inni í þeim eru bæði íbúðar- og atvinnuhúsnæði.

Ari Skúlason framkvæmdastjóri Landsvaka
Ari Skúlason framkvæmdastjóri Landsvaka
Hagfræðideild Landsbankans spáir 9,5% hækkun fasteignaverðs á þessu ári, 6,5 árið 2016 og 6,2% árið 2017. Spurður hvort þetta sé brött spá svarar Ari Skúlason, hagfræðingur í bankanum: „Já, hún er náttúrlega brött en við vorum líka með bratta spá fyrir árið 2014 og hún gekk upp.

Markaðurinn er í nokkuð góðu jafnvægi miðað við allar þær sveiflur sem hann hefur tekið undanfarin ár. Hann fór náttúrlega hátt upp og síðan langt niður en hefur verið að ná sér aftur núna. Það eru margar breytur sem benda til þess að markaðurinn sé í jafnvægi, eins og til dæmis fjöldi kaupsamninga."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .

Fasteignamarkaður
Fasteignamarkaður