Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um allt að þriðjung að nafnvirði á síðastliðnum fjórum árum á höfuðborgarsvæðinu. Þetta má lesa út úr gögnum Þjóðskrár sem tekur saman vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu. Þar má enn fremur sjá að íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 11,1 % á undanförnu ári. Það samsvarar um 8,9% raunhækkun á þessum tólf mánuðum.

Vísitalan hækkaði um 2,2% í mars eingöngu. Frá mars 2010 er raunhækkun íbúðarhúsnæðis samtals um 13% en nafnverðshækkun vísitölunnar er 28,7%. Eignir í fjölbýli hafa hækkað talsvert meira en sérbýli á síðustu fjórum árum. Að raunvirði hefur vísitala íbúðaverðs fyrir eignir í fjölbýli hækkað um 17,2% frá mars 2010 en um 32,8% að nafnvirði. Á sama tíma hefur raunvirði sérbýliseigna staðið í stað þar sem vísitalan fyrir eignir í sérbýli hefur hækkað um 16,1% en verðlagsvísitalan um 15,7% á þessum fjórum árum.

Kemur ekki á óvart

Regína Bjarnadóttir, forstöðumaður greiningardeildar Arion banka, segir þessar hækkanir að undanförnu ekki koma á óvart. „Við vorum að gera ráð fyrir 8-9% hækkun á þessu ári að nafnvirði. Raunhækkunin er meiri en við bjuggumst við þar sem verðbólgan er lægri en við vorum að gera ráð fyrir fyrir nokkrum mánuðum síðan og hefur haldist lægri. En þessar nafnverðshækkanir koma okkur ekki að á óvart.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð .