Fasteignaverð á Spáni lækkaði um rúmlega 11% á fjórða ársfjórðungi síðasta árs miðað við árið áður. Á þriðja ársfjórðungi var sambærilega lækkun rúmlega 7%. Eru þessar lækkanir þær mestu sem sést hafa síðan hagstofa Spánar, INE, hóf að birta opinberar tölur um fasteignaverð árið 2007. Þetta kemur fram á vef Wall Street Journal.

Fasteignaverð á Spáni var í hámarki árið 2007 eftir margra ára uppsafnaða fasteignabólu og sérfræðingar segja að frá árinu 1970 hafi fasteignaverð mjög sjaldan lækkað milli ára. Á síðasta ári voru 361 þúsund heimili seld á Spáni sem er meira en helmingi færri en seld voru árið 2007.

Margir Íslendingar eiga fasteignir á Spáni en þessar lækkanir bitna illa á fasteignaeigendum sem og spænskum bönkum sem hafa lánað upphæð sem nemur um 40% þjóðarframleiðslu Spánar í fasteignalán.