Greiningardeild Arion banka spáir 8-9% nafnverðshækkun á fasteignamarkaði á komandi árum. Þetta kemur fram í skýrslu bankans um fasteignamarkað. Greiningardeildin spáir því að minni eignir muni hækka meira í verði og þá sérstaklega miðsvæðis. Þetta er meðal annars rökstutt með því að aldurshópurinn 20-35 ára er töluvert skuldsettari en margir aðrir og kann það að takmarka framboð minni íbúði í fjölbýli. Greiningardeildin býst því við að nýir kaupendur á markaði muni þrýsta verði íbúðanna upp þar til eigendurnir losna úr eiginfjárgildrunni.

VB sjónvarp ræddi við Hafstein Hauksson hjá greiningardeild Arion banka um málið en hann bendir meðal anars á að fasteignaverð þurfi að hækka til að vega á móti háum byggingakostnaði.

Skuldsett ungt fólk

Skuldastaða
Skuldastaða

Eins og sjá má á þessari mynd úr skýrslu greiningardeildarinnar er fólk á aldrinum 25-35 ára hvað mest skuldsett en eins og áður sagði er þetta hópur sem gjarnan býr í smærri fasteignum. Greiningardeildin skoðar eftirspurn eftir misstórum eignum út frá þróun skuldastöðu og rennir það stoðum undir þá kenningu að staðan geti verið áhrifaþáttur í þróun fasteignaverðs.

Í skýrslu greiningardeildarinnar segir að útlit sé fyrir heilbrigðari fasteignamarkað á komandi árum. Hætta er þó talin á bólumyndun eins og vb.is hefur fjallað um í dag.

Aðstæður til fjármögnunar hafi batnað töluvert þrátt fyrir lægra lánshlutfall en áður. Greiningardeildin telur heilt á litið ljóst að fasteignaverð hafi nú náð botningum; aðstæður á eftirspurnarhlið fasteignamarkaðarins hafi verið núllstilltar eftir hrunið og almennur bati í hagkerfinu muni styðja við hærra fasteignaverð, bæði í gegnum aukinn kaupmátt og svigrúm til skuldsetningar. „Þá eru væntingar á uppleið sem skiptir máli fyrir þróun á fasteignaverði,“ segir í skýrslunni.