Kaupandi fasteignar á ekki rétt á bótum úr ábyrgðartryggingu fasteignasala þar sem honum tókst ekki að sýna fram á tjón af saknæmri háttsemi fasteignasalans.

Á söluyfirliti eignarinnar kom fram að í kjallara eignarinnar væri um 30 fermetra óskráð rými sem unnt væri að innrétta sem herbergi. Eftir kaupin kom hins vegar í ljós að umrætt rými var í fermetratölu eignarinnar og hún því 11% minni en söluyfirlitið gaf til kynna. Kaupandinn taldi sig hafa greitt yfirverð af þeim sökum og fór fram á bætur úr hendi tryggingafélags fasteignasalans.

Að mati úrskurðarnefndar í vátryggingamálum var fallist á það að um saknæma háttsemi fasteignasalans hefði verið að ræða við gerð söluyfirlitsins. Ekkert lá hins vegar fyrir um umfang fjártjóns kaupandans vegna þessa eða þá sönnun fyrir því að nokkuð slíkt tjón hafi orðið og greiðsluskyldu hafnað.