Magnúsi Ármann og Kevin Gerald Stanford er gert að greiða Arion banka 240 milljónir króna hvor vegna sjálfskuldarábyrgðar á láni Materia Invest, samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem féll í morgun. Materia er gert að greiða Arion banka 6,3 milljarða króna en Kaupþing veitti félaginu lánið árið 2005.

Í gær tilkynnti Arion banka um samkomulag við Þorstein M. Jónsson, eiganda Vífilfells og einn eigenda Materia Invest. Hann var líkt og Magnús og Kevin í persónulegum ábyrgðum fyrir 240 milljónum króna af skuldum félagsins. Samkvæmt upplýsingum frá Arion banka eru mál Vífilfells og Materia Invest aðskilin í samkomulagi við Þorstein og liggja fasteignir sem veð fyrir persónulegri ábyrgð hans vegna skulda Materia. Söluandvirði Vífilfells, sem rennur til bankans, mun því ekki ganga upp í persónulega ábyrgð Þorsteins, samkvæmt upplýsingum frá Arion banka.

Í tilkynningu Arion banka um samkomulag bankans við Þorstein M. Jónsson, sem send var í gær, kemur fram að hluti af því samkomulagi er uppgjör persónulegra ábyrgða hans vegna Materia. Hann var einn eigenda ásamt þeim Magnúsi og Kevin og nam sjálfskuldarábyrgð hans einnig 240 milljónum króna.

Grundvöllur samkomulagsins er sala á Vífilfelli til spænska drykkjarvöruframleiðandans Cobega. Samkvæmt samkomulaginu rennur greiðsla af sölu Vífilfells, sem er í eigu félaga Þorsteins, til Arion banka. Alls nema skuldir félaganna Sólstafa og Neanu, sem halda um hluti Vífilfells, 6,4 milljörðum króna og skuldir Vífilfells 4,5 milljörðum við bankann.