Þrátt fyrir að fasteignaverð hér á landi hafi hækkað töluvert undanfarin ár þá eru fasteignir í miðbæ Reykjavíkur, sem teljast til dýrustu eigna landsins, með töluvert lágan verðmiða í samanburði við aðrar borgir í Evrópu og Norður Ameríku. Þetta kemur fram í nýjum markaðspunktum greiningardeildar Arion banka.

Mikið hefur verið rætt um hækkun fasteignaverðs og möguleika á bólumyndun síðustu misseri. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gaf t.a.m. út viðvörun í júní þess efnis að hrun á fasteignamörkuðum gæti verið í fatvatninu ef ekki yrði gripið í taumana.

Greiningardeildin bendir á að þrátt fyrir mikla nafnverðshækkun fasteigna á síðustu árum þá hafi raunverð fasteigna á Íslandi ekki hreyfst mikið og hækkaði einungis um 4% milli áranna 2010 og 2013.

Þá sé Reykjavík í 13. neðsta sæti meðal borga í Evrópu og Norður Ameríku þegar litið er til fasteignaverðs í miðbænum. Greiningardeildin veltir því upp hvort fasteignir séu þrátt fyrir allt lágt verðlagðar.

Þegar tekið er tillit til vergrar landsframleiðslu á mann telur greiningardeild Arion banka að megi færa frekari rök fyrir lágu verði á fasteignum í miðbæ Reykjavíkur. Þannig sé fermetraverð í miðbæ Reykjavíkur á svipuðu reki og í öðrum borgum í suður og austur hluta álfunnar þrátt fyrir að meðaltekjur á mann séu mun hærri hér á landi, jafnvel tvöfalt hærri.

Þá sé hlutfallið á milli fermetraverðs og meðaltekna með lægsta móti sem gefi til kynna að fasteignir í Reykjavík séu á viðráðanlegu verði, að minnsta kosti í alþjóðlegum samanburði.