Fasteignir á Íslandi virðast almennt vera undirverðlagðar, eða á mörkum þess að vera undirverðlagðar, hvort sem litið er til staðsetningar innan höfuðborgarsvæðisins eða á öðrum stöðum á landsbyggðinni. Kemur þetta fram í Markaðspunktum greiningardeildar Arion banka, en þar segir að það kunni að koma einhverjum spánskt fyrir sjónir að Mosfellsbær og Kópavogur beri sanngjarnan verðmiða á meðan miðbær Reykjavíkur sé á mörkum undirverðlagningar, en ástæðan felist fyrst og fremst í lægra leiguverði á þessum tilteknu stöðum heldur en í miðbæ Reykjavíkur.

Velta á fasteignamarkaði hefur verið með besta móti framan af ári. Litið til síðustu fjögurra ára þá hefur veltan ekki mælst hærri en á fyrstu fimm mánuðum ársins. Frá því að fasteignaverð náði botni í árslok 2010 hefur það hækkað um ríflega 18% á höfuðborgarsvæðinu og hefur lækkunin sem átti sér stað á árunum 2008-2010 því að mestu leyti gengið tilbaka. Að raunvirði (leiðrétt fyrir launum) er fasteignaverð hins vegar enn um 27% lægra en í ársbyrjun 2008. Á markaðurinn því enn langt í land til að ná fyrri hæðum að raunvirði.

Einn mælikvarði á verðlagningu fasteigna er að skoða hlutfall húsnæðiskostnaðar á móti launum, þar sem húsnæðiskostnaður tekur tillit til þróunar fasteignaverðs og vaxtakjara húsnæðislána. Víki hlutfallið verulega frá langtímameðaltali þá eru merki þess efnis að fasteignaverð sé yfir- eða undirverðlagt. Verðlagning fasteigna leiðrétt fyrir launaþróun og vaxtakjörum er nálægt sögulegu lágmarki og svipar til áranna 1998 og 2004. „Það er því ekki annað að sjá en að aðstæður á mörkuðum hafi batnað verulega þar sem fasteignir hafa farið úr því að vera verulega yfirverðlagðar á bóluárunum (allt að ríflega 40% yfirverðlagning) í að vera undirverðlagðar á þennan mælikvarða, samhliða hækkandi fasteignaverði umfram laun og lækkandi fjármagnskjörum. Fyrr eða síðar mun hlutfallið leiðrétta sig í átt að jafnvægi á ný, hvort sem það er í gegnum hækkun fasteignaverðs umfram laun,hærri vaxtakjör eða hvoru tveggja,“ segir í Markaðspunktunum.

Kvaðir um eigið fé við íbúðakaup hafa aukist frá árunum 2004-2007, þá hafa reglur verið hertar um lánsveð og greiðslumat ásamt því sem vaxtakjör fara í flestum tilfellum stighækkandi þegar komið er yfir ákveðið lánshlutfall. Eiginfjárkrafa setur því að sögn greiningardeildarinnar ákveðnar skorður til fasteignakaupa, einkum skuldsettum heimilum og nýjum fasteignakaupendum. Vegna þessa hafa töluverðar breytingar orðið á íslenska fasteignamarkaðnum undanfarin ár og leigumarkaðurinn sótt í sig veðrið. Þannig hefur eftirspurn eftir leiguhúsnæði aukist mikið frá hruni, til að mynda hefur þinglýstum leigusamningum fjölgað um 75% frá árinu 2007. Á sama tíma hefur þinglýstum kaupsamningum fækkað um 50%.

„Hin mikla eftirspurn eftir leiguhúsnæði hefur þrýst leiguverði töluvert upp. Leiguverð fasteigna á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 23% frá ársbyrjun 2011 en á sama tíma hefur kaupverð hækkað um 18%. Raunhækkun leiguverðs á sama tímabili er hins vegar aðeins 3%, ef við leiðréttum fyrir launaþróun.“