Fasteignasafn Reita dróst saman um 3,8 milljarða á fyrstu þremur mánuðum ársins og nemur metið gangvirði þess nú 132 milljörðum króna, en auk 2,1 milljarðs niðurfærslu voru eignir seldar fyrir 1,5 milljarða.

„Þrátt fyrir töluverða óvissu um áhrif faraldursins er það mat stjórnenda nú að afleiðinga hans munu gæta út árið 2022 og að mestu áhrifin komi fram á þessu ári, en fari minnkandi eftir það,“ er haft eftir Guðjóni Auðunssyni forstjóra félagsins um virðismatið í tilkynningu vegna fjórðungsuppgjörs félagsins .

Rekstrarhagnaður félagsins fyrir matsbreytingu nam 1,9 milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi og var svo til óbreyttur milli ára, en bæði 2,9 milljarða tekjur og kostnaðarliðir breyttust lítið sem ekkert.

Matsbreyting fjárfestingareigna var sem fyrr segir neikvæð um 2,1 milljarð samanborið við ríflega 700 milljóna hækkun á sama tímabilli í fyrra, og endanlegt tap félagsins var því rúmur milljarður á fjórðungnum samanborið við milljarð króna hagnað í fyrra.

Mikil óvissa um áhrif Covid
Þótt ekki hafi séð á rekstrinum sem slíkum milli ára á fjórðungnum ríkir mikil óvissa um áhrif faraldursins á félagið, sem hefur ákveðið að fresta arðgreiðslum og hætta endurkaupum.

Lausafjárstaðan er sögð sterk, en fasteignafélagið hefur komið til móts við leigutaka sem orðið hafa fyrir „verulegum áhrifum af stöðunni“ og frestað hluta leigugreiðslna fyrir apríl og maí, og mun félagið „leita niðurstöðu þeirra mála í góðu samstarfi við viðkomandi aðila þegar aðstæður leyfa“.

Eins og sagt var frá í gær hefur aðsókn í Kringluna – stærstu fasteign félagsins – þegar tekið kipp eftir að faraldurinn fór að réna hér á landi og slakað var á samkomubanni nú í byrjun maí.

Þróunareignir félagsins námu 8,4 milljörðum króna í lok fjórðungsins og hækkuðu um 800 milljónir, og nýtingaréttur lóðaleigusamninga stóð í stað í 5,4 milljörðum.

Heildarfjárfestingareignir félagsins námu því 146 milljörðum og rýrnuðu um 3 milljarða, og heildareignir námu 152 milljörðum og voru svo til óbreyttar frá áramótum. Eigið fé nam 44,8 milljörðum og rýrnaði um 6%, og eiginfjárhlutfall nam 29,5% og lækkaði um 2 prósentustig.