Í toppformi ehf., sem varð til þegar fasteignum Lauga ehf., rekstraraðila World Class, var skipt út úr félaginu, hagnaðist um 81 milljón króna á síðasta rekstarári. Tekjur námu 457 milljónum en gjöld 154 milljónum. Eftir tæplega 202 milljóna fjármagnsgjöld var hagnaður fyrir skatta 101 milljónir.

Eignir félagsins, sem meðal annars innihalda World Class á Seltjarnarnesi og í Laugardal, eru metnar á tæplega 5.157 milljónir króna. Langtímaskuldir nema rúmlega 2.963 milljónum en skammtímaskuldir 802 milljónum, þar af stóðu skuldir við tengda aðila í 652 milljónum í árslok. Næsta árs afborganir af lánum til Landsbankans nema um 143 milljónum. Eigið fé er jákvætt um 1.212 milljónir en þar af er óráðstafað eigið fé tæpar 1.210 milljónir.

Í fyrra fjárfesti félagið í nýjum eignum fyrir 423 milljónir. Björn Leifsson og Hafdís Jónsdóttir eiga 36,6% hvort í félaginu en Sigurður Leifsson afganginn.