Beski viðskiptamaðurinn George Hay birti í gær grein á Reuters undir þeirri yfirskrift að Ísland þyrfti jafnmikið á því að halda að festa gengi krónunnar við evru eins og að þorskur þyrfti reiðhjól.

Virkaði ekki áður og mun ekki virka nú

„Það er ekki hægt að finna að skopskyni Íslendinga,“ byrjar Hay sem skrifar reglulega um efnahagsmál Evrópu. „Fjármálaráðherra þessa ríkis í Norður Atlantshafinu valdi 1. apríl til þess að velta upp þeirri hugmynd að festa gjaldmiðil landsins, krónuna, við evru,“ segir Hay.

„Tilgáta hans er sú að það gæti hjálpað til við að draga úr sveiflum. En það virkaði ekki vel áður, og mun ekki hjálpa núna heldur.“

Ætti frekar að miða við kanadadal

Vísar hann þar í skammlífa ákvörðun Seðlabankans frá því í október 2008 að festa gengi krónunnar við Evru á hápunkti fjármálakrísunnar rétt eftir að Landsbankinn féll.

Segir hann vandann sem þjóðin stóð frammi fyrir þá vera þveröfugan við vandann sem nú liggi fyrir stjórnvöldum í kjölfar 19% styrkingar krónunnar á síðasta ári miðað við viðskiptakjör.

„Festing krónunnar við evru nú gæti varið íslenskan fiskiðnað og annan iðnað gagnvart því að missa samkeppnishæfni á erlendum mörkuðum. Að því gefnu að evran sjálf sé stöðug, myndi það halda aftur af styrkingu gjaldmiðilsins,“ segir Hay sem þó segir að ef stjórnvöld vilji fastgengisstefnu ætti frekar að miða við gjaldmiðla annarra auðlindaríkra landa eins og Kanada.

Skásti kosturinn að festa gengið ekki

„Skásti kosturinn væri þó að festa ekki gengið. Ólíkt öðrum fórnarlömbum fjármálakrísunnar sem festust í of háu gengi, eins og Grikkland, þá virkaði íslenski gjaldmiðillinn til að létta af þrýstingi í stað þess að virka eins og hengingaról,“ skrifar Hay.

„Hagsmunahópum líkar það kannski ekki, en að fórna sveigjanleikanum gæti gert krísur framtíðarinnar enn sársaukafyllri.“