Jón Garðar Ögmundsson, framkvæmdastjóri McDonalds, hefur stofnað fyrirtækið Fastus ehf., sem mun selja lækningar- og hjúkrunartæki, stóreldhústæki og þvottahúsatæki til fyrirtækja.

Jón Garðar vann hjá A. Karlssyni í tólf ár, þar til hann hætti hjá fyrirtækinu fyrir tíu árum og verður Fastus í beinni samkeppni við A. Karlsson. "Við munum vinna með færri aðilum og sinna þeim betur," segir hann.

Jón Garðar segir að þegar hafi tveir fyrrum starfsmenn frá A. Karlssyni hafið störf hjá Fastus, en alls hafi hann gert samning við 15 manns þaðan um að hefja störf hjá Fastus í haust. "Samtals er þetta fólk með yfir 200 ára starfsreynslu í þessum geira. Svo munu nokkrir fyrrum starfsmenn A. Karlssonar stofna eigið þjónustufyrirtæki, sem kemur til með að starfa með Fastus, þannig að alls hætta um 20 manns hjá A. Karlssyni og hefja störf á öðrum vettvangi," segir Jón Garðar.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í gær.