Þremur milljónum fleiri eru undir fátæktarmörkum á Ítalíu en þegar kreppan í landinu hófst fyrir sjö árum. Þetta er fjölgun um 93,9 prósent. Þessu greinir Ríkisútvarpið frá.

Hátt í tvær milljónir starfa hafi verið lagðar niður og atvinnuleysi hefur meira en tvöfaldast á tímabilinu. Efnahagslægðin er orðin hin lengsta á Ítalíu frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar, segja atvinnurekendur. Atvinnuleysið mælist þrettán prósent, en ástandið er mun verra meðal ungs fólks. Þar eru um fjörutíu prósent án vinnu og því farið að tala um þann hóp sem týndu kynslóðina í ítölsku atvinnulífi.