Arsenal hefur ráðið hönnuðinn George Davis, sem hannaði Per Una-fatalínu Marks & Spencer verslunarkeðjunnar, til að þróa og hanna nýjustu búninga og vörulínu Lundúnaliðsins, segir í frétt breska dagblaðsins The Daily Telegraph.

Davies mun opna tvær búðir í Emirates-leikvanginum, en Arsenal undirbýr sig nú undir að flytja herbúðir sínar frá Highbury að síðasta heimaleik yfirstandandi tímabils loknum.

Arsenal og Davies munu skipta hagnaðinum af sölu nýju vörulínunnar á milli sín, sagði Adrian Ford, viðskiptastjóri Arsenal, í samtali við The Daily Telegraph.

Ford sagði Davies algjörlega ráða hönnun nýju vörulínunnar, sem hann telur verða róttæka og frumlega.

Til að byrja með mun Davies einungis hanna fyrir búðir á vegum Arsenal en Ford sagði þó mögulegt að Arsenal-vörurnar verði fáanlegar í stórmörkuðum í Bretlandi og víðar.