Landsmenn voru heldur sparsamari í neyslu á mat og drykk í júlí síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra. Að hluta til er skýringin sú að í fyrra voru síðustu innkaupadagar fyrir verslunarmannahelgi í júlí en í ár voru þeir í ágúst. Þegar leiðrétt hefur verið fyrir þessum dagamun var samt samdráttur að raunvirði um 1,6% í dagvöruverslun og 5,6% í áfengisverslun. Kemur þetta fram í tilkynningu frá Rannsóknarsetri verslunarinnar.

Fataverslun á enn í vök að verjast þó verð á fötum hafi aðeins hækkað um 3,4% á einu ári, sem er nokkru minna en almennar verðhækkanir. Síðasta ársfjórðunginn hefur raunsamdráttur orðið í fataverslun sem nemur 6,1% miðað við sama tímabil í fyrra. Skóverslun dróst saman í síðasta mánuði, en þegar borin er saman raunvelta síðasta ársfjórðung við sama tíma í fyrra kemur í ljós að sala á skóm hefur aukist lítillega á þessu tímabili.

Sala á húsgögnum og raftækjum eykst smám saman enda líkur á að endurnýjunar sé þörf á mörgum heimilum eftir þann mikla samdrátt sem átti sér stað í kjölfar hrun bankanna.

Með auknum fjölda erlendra ferðamanna til landsins eykst mikilvægi þeirra á íslenska verslun, að því er segir í tilkynningunni. Samkvæmt ferðaþjónustureikningi Hagstofunnar er gert ráð fyrir að um 15% neyslu erlendra ferðamanna hér á landi sé varið til smásöluverslunar. Í síðasta mánuði var velta erlendra greiðslukorta hér á landi 13,1 milljarður króna. Samkvæmt þessu má ætla að ferðamenn hafi varið næstum tveimur milljörðum kr. í verslun hér á landi í síðasta mánuði.