Í apríl jókst velta dagvöruverslana um 9,3% að nafnvirði frá sama mánuði í fyrra, og nam aukningin 12,6% ef miðað er við raunvirði. Rannsóknarsetur verslunarinnar segir skýringuna mega að mestu rekja til þess að páskarnir hafi verið í apríl á þessu ári en fyrir ári síðan hafi þeir verið í mars, sem skekki mælinguna.

Veltuaukningin milli ára, þegar búið er að leiðrétta fyrir þessum árstíðamun, nemur að raunvirði 6,9%, sem að sögn setursins sýnir að greinilegt sé að landsmenn geri betur við sig í mat og drykk en í fyrra.

Útlendingar versluðu fyrir 18,2 milljarða

Á hinn bóginn haldi innlend fata- og skóverslun áfram að dala, sem og að fataverslunum hafi fækkað, en samdrátturinn í fataverslunum nam 24,3% miðað við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi, en 20,7% á föstu verðlagi.

Velta skóverslunar minnkaði um 12% milli ára á breytilegu verðlagi, og 13,3% á föstu verðlagi, en leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum nam lækkunin 14,5% á föstu verðlagi. Á sama tíma hækkaði verð á skóm um 1,5% frá því í apríl í fyrra.

Einnig vísar rannsóknarsetrið í, líkt og Viðskiptablaðið hefur þegar fjallað um , aukna kortaveltu Íslendinga erlendis í mánuðinum. Á sama tíma og íslensk heimili veltu 62,8 milljörðum króna á kreditkortum sínum innanlands og 11,9 milljörðum í útlöndum, keyptu útlendingar fyrir 18,2 milljarða hér innanlands, sem gerir því jákvæðan mismun sem nemur 6,4 milljörðum.

Samdráttur í byggingavöruverslunum árstíðabundinn

Einnig var samdráttur í byggingavöruverslunum í apríl, um 2%, en rannsóknarsetrið telur það vera tvímælalaust vegna færri söludaga í apríl á þessu ári en í fyrra, því heilt yfir hafi velta þeirra síðustu sex mánuðina aukist um 11% frá sama tímabili í fyrra.Í samanburði milli ára sést að verð á nánast öllum vöruflokkum hafi lækkað, og má þar nefna að verð á svokölluðum brúnum raftækjum, en til þeirra flokkast til að mynda sjónvörp, hljómtæki og þess háttar, hafi lækkað um 18% í apríl frá sama tímabili í fyrra.

Á sama tíma hafi veltan í þessum flokki aukist um 28% að raunvirði síðustu 12 mánuði. Á sama tíma lækkaði verð á rúmum um 8,3% meðan velta sérverslana með rúm jókst um 45,4% að raunvirði. Í apríl jókst sala á áfengi um 5,8% meðan hún jókst um 5,5% á föstu verðlagi, en leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum nam aukningin um 4,4% á sama tíma og verð á áfengi hækkaði um 0,3% á milli ára.