„Þetta er hlutur sem við höfum margsagt og vakið athygli stjórnvalda á. Það er aðkallandi að bregðast við þessu ástandi í fataverslun, miklir hagsmunir eru í húfi,“ segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ), í samtali við Morgunblaðið um samdrátt í fataverslun hér á landi.

Rannsóknarsetur verslunarinnar á Bifröst tekur reglulega saman upplýsingar um smásöluverslun hér á landi. Emil B. Karlsson, forstöðumaður rannsóknarsetursins, segir fataverslunina ekki hafa náð sér eftir hrunið. Þróunin hafi verið niður á við síðan í október síðastliðnum.

Andrés segir SVÞ hafa fengið ágæt viðbrögð frá stjórnvöldum að færa virðisaukaskatt á fötum í neðra skattþrepið. „Við sjáum engin merki þess að verslun með föt nái sér á strik nema að varan verði gert samkeppnishæfari,“ segir hann.