Fyrirhuguð frestun júnífundar FATF var endurskoðuð í kjölfar mótmæla dómsmálaráðherra. Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins

FATF (alþjóðlegur fjármálaaðgerðahóps ríkja um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka) hafði áformað að fresta fundinum vegna COVID-19. Nú hefur verið ákveðið að halda fjarfund í júní þar sem tekin verður ákvörðun um vettvangsathugun sérfræðinga á framgangi aðgerða Íslands í aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Slík athugun er nauðsynlegur undanfari ákvörðunar um að Ísland losni af svonefndum „gráa lista“ samtakannaí október. Ákvörðunina er einungis hægt að taka á slíkum fundi sem haldnir eru í febrúar, júní og október ár hver. Ef júní fundi FATF hefði verið aflýst, þá væri útséð um að Ísland losnaði af listanum fyrr en í febrúar á næsta ári.

„Vegna COVID-19 ætlaði FATF að hætta við fundinn í júní og fresta öllu ferlinu fram í október. Það hefði haft þau áhrif að í október hefði verið tekið ákvörðun um að koma í vettvangsathugunin og í febrúar lögð fram tillaga um hvort við hefðum uppfyllt skilyrðin. Ég taldi það algjörlega ótækt og mótmælti þeirri ráðstöfun, sérstaklega á tækniöld, að það væri ekki líðandi að Ísland sem hefði uppfyllt öll sín skilyrði í maí 2020 myndi losna af listanum í febrúar 2021.“

Þetta kom fram í ræðu ráðherra sem flutt var á fundi Fjártækniklasans um aðgerðir gegn peningaþvætti. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra fór yfir aðgerðir íslenskra stjórnvalda og vinnu ráðuneytisins til að komast af gráa listanum.

Þá kom fram í ræðu dómsmálaráðherra að sérfræðingaskýrslu um stöðu Íslands gagnvart þeim atriðum sem útaf stóðu í síðustu úttekt FATF verði skilað í lok þessa mánaðar og ákvörðun um vettvangsathugun verði tekin um miðjan júní. Sú vinna hefur gengið vel og að mati stjórnvalda ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að Ísland uppfylli fjórðu peningþvættistilskipun Evrópusambandsins. Sú vinna var í forgangi en fram kom í máli ráðherra að einnig unnið að því að ljúka þeirri fimmtu.

„Við höfum einnig hafið vinnu við að endurskoða ákvæði íslenskrar löggjafar um svokallaðar sýndareignir og þá liggur nú fyrir hjá Alþingi frumvarp til breytinga á lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Með því frumvarpi er annars vegar verið að skerpa á nokkrum atriðum sem upp hafa komið við beitingu laganna og hins vegar að innleiða það sem eftir stendur af fimmtu peningaþvættistilskipun Evrópusambandsins, en þar er fyrst og fremst um að ræða skyldu til að koma á fót skrá yfir bankareikninga sem hlutaðeigandi yfirvöld hafa aðgang að í tengslum við störf sem tengjast aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Ég hef þegar lagt fram frumvarp um þetta efni sem er nú til meðferðar í þinginu og bind vonir við að það klárist í sumar,“ sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir í ræðu sinni á fundi Fjártæknifélagsins.