Afar fátítt er að stjórnvöld grípi inn í verkfallsaðgerðir með lagasetningu. Það var gert 12 sinnum á árunum 1985 til 2010. Á tímabilinu voru 166 verkföll. Tvö skipti bættust við á þessu ári þegar gripið var inn í aðgerðir undirmanna á Herjólfi í byrjun apríl og aftur í gær í verkfallsaðgerðum flugmanna Icelandair.

Þótt verkfall sé að baki eru kjaradeilur enn í gangi. Á mánudag lögðu sjúkraliðar og félagar í SFR niður vinnu og gera þeir það aftur í dag. Þá lögðu grunnskólakennarar niður störf í dag. Til viðbótar hafa flugmenn Air Atlanta boðað ótímabundið yfirvinnubann á laugardag og flugfreyjur Icelandair á sunnudag. Vinnustöðvanir halda svo að óbreyttu áfram í næstu viku.

Fram kemur í Viðskiptablaðinu í dag að stjórnvöld gripu aðeins inn í verkfallsaðgerðir ef efnahagslegt vægi þjóðarbúsins og stöðugleika á vinnumarkaði var í húfi, heildarhagsmunir atvinnugreinarinnar að veði eða lögmælt verkefni og framkvæmd þeirra hjá hinu opinbera.

Fram kom í athugasemdum við frumvarp innanríkisráðherra fyrir frestun verkfallsaðgerða Félags íslenskra atvinnuflugmanna gegn Icelandair sem lagt var fram á Alþingi í gær að áætlað tekjutap þjóðarbúsins sé um 900 milljónir króna á degi hverjum. Ferðaþjónusta og afleiddar atvinnugreinar eigi því mikið undir. Inni í tölunni er ekki tekið tillit til tekjutaps sjávarútvegsins.

Fjallað er um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .