Ekkert bendir til þess að eignabóla sé á fasteignamarkaði sem muni springa, að mati Ingólfs Bender, forstöðumanni Greiningar Íslandsbanka. Deildin gerir ráð fyrir því að fasteignaverð muni hækka að raunvirði um rúm 7% fram til loka árs 2014. Til grundvallar spánni eru bættar aðstæður í íslensku efnahagslífi, bætt atvinnuástand, fjölgun starfa og fleiri þættir sem ýta íbúðaverði upp.

Hann áréttaði að fátt benti til að hér sé bóla á fasteignamarkaði. Í raun fyndist sér einkennilegt að grípa til þess háttar orðalags. „Sögulega séð er íbúðaverð að raunvirði ekkert sérstaklega hátt, ekki heldur í samburði við byggingakostnað,“ sagði hann.

Ingólfur benti hins vegar á að það sama gildi um fasteignaverð hér og annað virði eigna. Gjaldeyrishöftin bjagi það.

„Ef höft yrðu afnumin myndi húsnæðisverð lækka. Líklega yrði sú aðlögun í gegnum mikla verðbólgu frekar en mikla lækkun á raunvirði,“ sagði hann en efaðist um að gjaldeyrishöft verði afnumið í lok næsta árs eins og stefnt sé að.