Fundur samninganefndar Læknafélags Íslands og ríkisins hefst klukkan 14 í dag. Ef ekki tekst að semja í dag þá hefjast verkfallsaðgerðir lækna á ný á miðnætti.

Haft var eftir Þorbirni Jónssyni, formanni Læknafélags Íslands, í hádegisfréttum Bylgjunnar að fátt komi í veg fyrir að verkfall hefjist í nótt. Um flókna samninga sé að ræða en tíminn sé stuttur og því sé ólíklegt að samningar takist.

Ef ekki nást samningar í dag munu læknar á aðgerðar- og flæðisviði Landspítalans leggja niður störf, en bráðamóttaka, gjörgæsla og skurðdeildir falla þar undir. Fyrsta verkfallslotan mun standa yfir í fjóra sólarhringa.

Fyrirhugaðar verkfallsaðgerðir lækna ná til næstu tólf vikna.