Fátt kom á óvart þegar uppgjör fasteignafélagsins Regins var kynnt í lok síðasta mánaðar en félagið skilaði 750 milljóna króna hagnaði á fyrstu sex mánuðum þessa árs sem er um 40% aukning frá sama tíma í fyrra.

Vöxtur fyrirtækisins hefur verið nokkuð hraður á síðustu árum en nýlega tók t.a.m. félagið yfir eignasafn Klasa fasteigna auk þess sem það tilkynnti í júní um kaup þess á fasteignum sem hýsa Hótel Óðinsvé. Því næst undirritaði Reginn kaupsamning á 8.000 fermetra verslana- og þjónusturými á Hörpureitum 1 og 2 við Austurbakka. Þar sem óvissa ríkir um endanlega afhendingu eignarinnar telja stjórnendur félagsins ekki rétt að birta frekari upplýsingar um áhrif kaupanna á afkomu og efnahag þess.

Uppgjörið stóðst væntingar flestra greiningaraðila en fyrir það hafði ríkt einhver óvissa um hver fyrstu áhrif eigna Klasa fasteigna á eignasafn Regins yrðu. Þá hafi stjórnunar- og markaðskostnaður félagsins verið hærri en t.d. greinendur IFS greiningar áttu von á en samkvæmt forsvarsmönnum Regins er hann einungis tilfallandi. Nýtt fasteignamat fyrir árið 2015 kom út í júní og þar lækkaði Smáralind um 7,7% í virði á meðan Egilshöll hækkaði um 3%. Eru þetta stærstu eignir félagsins en matið hefur ekki teljandi áhrif á afkomu og rekstur þess þótt fasteignagjöld séu stór kostnaðarliður í rekstri fasteignafélaga.

Nánar er fjallað um málið í blaðinu Úr Kauphöllinni sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .